21.4.2007 | 21:45
Ætlar þú að vera hommi þegar þú verður stór?
Óborganlegt samtal 5 ára dóttur minnar og 3 ára sonar míns í morgun var eitthvað á þessa leið:
Hún: "Ætlar þú að vera hommi þegar þú verður stór?"
Hann: "Nei ég ætla ekki að vera Hemmi" (Hemmi er nágranni okkar)
Hún: "Nei ég sagði hommi, ekki Hemmi. Veistu hvað hommi er?"
Hann: "Nei"
Hún: "Þá giftist þú öðrum strák og þú verður að ákveða þig strax hvort þú ætlir að vera hommi"
Hann: "Ég ætla frekar bara að vera Hemmi....."
Hún: "Ég ætla ekki að vera homma"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2007 | 08:02
Eitt ár í dag....
..... síðan yndislegi gleðigjafinn okkar kom í heiminn. Við héldum upp á afmælið í gær, sumardaginn fyrsta. Það var nú við hæfi því hún fæddist jú á þeim degi í fyrra og var besta sumargjöf sem hægt var að hugsa sér..... Hún veitir okkur öllum endalausa gleði og hamingju og er dásamleg í alla staði:)
Gleðilegt sumar.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.4.2007 | 12:35
Eru englar með eyru??
Eldri dóttir mín er mikill heimspekingur og spyr margra spurninga sem oft er flókið að svara. Um daginn spurði hún mig t.d. hvort englar væru með eyru? Ég sagðist halda það og sagði hún þá að þegar ég væri einhverntímann orðinn engill, þá gæti ég bara sent henni kort og sagt sér hvort englar væru með eyru eða ekki. Eða jafnvel tekið bara mynd og sent sér hana. Það hafa oft verið pælingar um hvernig hlutirnir eru í himnaríki og hvað t.d. langamma getur gert sér þar til dundurs. T.d. hvort hún geti hlaupið og hoppað og eða hvort hún sé bara alltaf sofandi? Dásamlegasta pælingin hennar fannst mér vera þegar hún spurði hvort Guð bakaði köku handa henni þegar hún ætti afmæli? Auðvitað eru kökur í himnaríki og sé ég alveg fyrir mér dagleg kökuboð þar sem öllum íbúum er boðið. Ef ekki í himnaríki, hvar þá? Já það geta verið yndislegar pælingar hjá þessum blessuðu börnum og oft eru nú svörnin við flóknu spurningunum bara ótrúlega einföld í þeirra eyrum.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2007 | 19:13
Kalli & Kata og Ævintýri bókstafanna
Varð fyrir miklu áfalli í dag þegar ég fann allar Kalla og Kötu bækurnar mínar galtómar í bókahillunni. Þ.e. bara kápurnar voru eftir en allar blaðsíðurnar horfnar. Ég kom um daginn að eldri grísunum mínum þar sem þau voru að troða blaðsíðum úr bókinni Kalli og Kata fara í ferðalag út um gluggann. Skil ekki hvernig þeim datt þetta í hug og hélt ég langann fyrirlestur um meðferð bóka og vitnaði m.a. í bókina sem amma mín heitin skrifaði og heitir Ævintýri bókstafanna. Sú bók fjallar um gjörspilta prinsessu sem fór svo illa með bækurnar sínar að bókstafirnir létu sig bara hverfa einn daginn úr öllum bókunum hennar og lentu í hinum ýmsu ævintýrum. Mér datt ekki í hug að þau hefðu náð öllum 6 bókunum og hafa þau verið svakalega snögg að troða þessu út um gluggann þrátt fyrir að það sé bara smá rifa sem hægt er að opna. Er virkilega svekkt yfir þessu, var búin að geyma bækurnar í ca. 30 ár og held ég að þessar bækur séu ófáanlegar í dag. Ég var líka búin að gefa þeim allar bækurnar mínar um Barbapabba. Spurning hvort ég taki þær ekki bara til baka??? Þau hefðu nú bara geta sagt mér að þeim fyndist bækurnar leiðinlegar.....
p.s. Ævintýri bókstafanna kom út árið 1942 og er ófáanleg í dag. Hef alltaf velt því fyrir mér hvaðan hugmyndin um Stafakarlana kom???
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.4.2007 | 11:31
Systkinakærleikur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.4.2007 | 14:07
Best í heimi....
Þetta kalla ég stórfrétt. Suri, dóttir Toms Cruise og Katie Holmes, fer vikulega í klippingu. Suri, sem ekki er orðin eins árs, hefur víst hitt stílista reglulega til að hafa stjórn á hinu mikla hári sem hún fæddist með. Sagt er að Tom og Katie séu með sérstakar kröfur um hárið á Suri og umgengni við barnið, sem er víst alltaf nakið og ekki má tala í kringum það.
Ísabella mín er að mig minnir einum degi eldri en Suri. Hún hefur aldrei farið í klippingu og er ekki með stílista. Hún er alltaf í fötum og á þessu heimili er talað stanslaust!
Ég er ekki kröfuhörð varðandi útlit barnanna minna. Þau eru hrein og í ágætum fötum og fer ég ekki fram á annað. Enda þarf ég þess ekki, því þau eru fallegustu og bestu börn í heimi.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2007 | 09:45
Allt í drasli
Það var mikið verið að leika hér í gær hjá systkinunum og fóru vinirnir heim án þess að hjálpa þeim að taka til eftir leikinn. Astrid varð afar pirruð í morgun þegar hún vaknaði og sá aftur óreiðuna í herberginu frá því í gær. Hún ÞOLIR ekki drasl og óreiðu eins og ég hef nokkrum sinnum nefnt og er bara ekki róleg fyrr en allt er komið í röð og reglu. Veit ekki hvaðan þetta tiltektargen kemur, mér dettur helst í hug að því hafi verið bætt í glasið sem hún varð til í vorið 2001? Þetta vantar allavega algjörlega í bróðir hennar. Hann væri sennilega fínn kandídat í þáttinn hans Heiðars snyrtis "Allt í drasli"......
Og yfir í allt annað. Ísabella mín er byrjuð að skríða Hún æddi af stað í gærkveldi eftir að vera búin að velta því vel fyrir sér í nokkra daga hvernig best væri að bera sig að. Nú verður ekki aftur snúið. Það er svo ótal margt sem hún á eftir að kanna í íbúðinni á fjórum fótum. Nú byrjar semsagt tímabilið þar sem allt er grandskoðað í skúffum og skápum. Er ekki heimurinn dásamlega spennandi????
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.4.2007 | 09:03
Fatlaðar ömmur og mömmur
"Er amma fötluð?" Þessa spurningu fékk ég í morgun frá syni mínum. Af hverju í ósköpunum heldur þú það spurði ég? "Nú af því að hún er svo gömul" Fyrir nokkrum dögum spurði hann mig hvort ég væri fötluð? Hann hefur greinilega heyrt þetta orð einhversstaðar og reyndi ég að útskýra fyrir honum hvað það þýðir. Að sumir væru mikið fatlaðir, eins og t.d. Anna Sóley og aðrir minna eins og t.d. afi Hákon. Upp frá þessu upphófust miklar pælingar hjá systkinunum hversu mikið hinir og þessir geta hreyft sig og hvort langamma gæti hoppað og hlaupið í himnaríki...... Í fyrradag voru miklar pælingar um krossfestingu Krists. Vááá miklar pælingar hjá þessum blessuðu börnum.....
"Mamma viltu segja okkur sögu um það þegar þú varst lítil???" Sem var nú auðvitað bara fyrir ÖRFÁUM árum Er að spá í að segja þeim eina af sögunum um yndislegu sunnudagana hjá elsku ömmu. Við Goggi fórum á hverjum einasta sunnudegi til ömmu og afa í hádeginu og var amma þá búin að elda dýrindis steik eða norska kúmpu sem var það allra besta í heimi . Já ég held ég segi þeim eina sögu um ömmu mína, enda get ég sagt sögur af henni endalaust og þeim finnst alltaf svo gaman að hlusta á sögurnar mínar. Held að það sé svo tilvalið að fara í göngutúr seinna í dag eftir páskaeggjaát. Stefnan er tekin á Hamrahlíðina og ætla ég að sýna þeim húsið sem amma og afi byggðu. Ég á svo dásamlegar minningar úr húsinu númer fimm.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.4.2007 | 15:04
Rétt skal vera rétt
Ohhhhh sá stafsetningarvillu í síðustu færslu. Ég þoli ekki stafsetningarvillur. Páskaeggið bíður í skápnum með einföldu íi. Ef ég vildi bjóða ykkur súkkulaði með mér væri það með y.
Þar sem þetta er Nóa egg kemur það ekki til greina....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2007 | 09:52
Apótek
Ernir minn er með bullandi eyrnabólgu í báðum eyrum. Fór með hann á læknavaktina í morgun því hann grét af kvölum og leið mjög illa. Þessi elska spurði mig í morgun hvort hann yrði nokkuð heyrnalaus því honum væri svo illt. Honum leist mjög illa á að fara til læknis og þurfti mamman nánst að draga hann út úr bílnum. Karlmenn eru nú bara með pínulítið hjarta Svo stóð hann sig eins og hetja og var mjög hissa hvað læknirinn var fljótur að skoða eyrun. Hann er semsagt kominn á pensilín og vonum við að þetta gangi fljótt yfir. Það hefur nú verið ansi mikill kostnaður síðustu vikur vegna lasleika. Læknar, röntgenmyndatökur, sýklalyf og vítamín. Gæti nánast opnað apótek hérna heima......
Og meira af eyrum. Ísabella mín fær rör í eyrun eftir páska. Foreldrarnir eru mjög spenntir að vita hvort hún muni þá fara að sofa almennilega, en eins og er getum við bara látið okkur dreyma um svefn. Frúin allavega bindur vonir við að þá muni hún hressast og hætta að vera með svima og yfirlið. Fór í sneiðmyndatöku á heila í vikunni og blóðprufur sem komu eðlilega út sem betur fer. Guði sé lof. Heilsuleysi frúarinnar er því allt skrifað á svefnleysi síðasta árið. Hef nú alltaf sagt að ég geti sofið nóg í ellinni en satt að segja væri ég alveg til í að fá betri svefn strax.....
Ísabella fékk síðbúna fæðingargjöf frá Sparisjóðnum í gær. Inneign á bankabók upp á 10.000.- og sparibauk. Bankarnir virðast vera voða hrifnir af henni þessa dagana og streyma inn bréf frá þeim í tilefni árs afmælis hennar. Allir vilja fá að ávaxta peningana hennar og fá hana sem viðskiptavin. Læt hana velja banka sjálf. Hennar val mun sennilegast miðast við hvaða banki er með flottasta sparibaukinn.....
Við Astrid fórum í fermingarveislu í gær. Theódóra hennar Svanhildar vinkonu var að fermast. Flott veisla og yndislega falleg fermingarstúlka. Pabbinn var heima með eyrnasjúku börnin á meðan.
Smá gullkorn frá Erni: "Mamma ertu fötluð?" Ha af hverju spyrðu? "Þórdís sagði það" (Þórdís er leikskólakennari og efa ég stórlega að hún hafi sagt þessi orð en ég mátti hafa mig alla við að fara ekki að hlægja) Pabbanum fannst þetta voða fyndið, sérstaklega vegna heilsuleysis frúarinnar síðustu daga
Til stóð að nota páskahelgina til útiveru og samveru fjölskyldunnar. Verðum þó líklega að vera meira inni vegna eyrnabólgu Ernis og skiptast á að fara aðeins út með stelpurnar. Foreldrarnir ætla nú að skiptast aðeins á að fara í World class enda bara 5 mánuðir í Spánarferðina og var meiningin að geta sprangað þar um á sandölum og ermalausum bol...... Það býður líka stórt páskaegg upp í skáp, getum ómögulega látið það skemmast!
Gleðilega páska!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)