15.6.2007 | 20:16
Rör, Burger King og ýmislegt fleira....
Sonur minn fékk rör í eyrun í morgun. Stóð sig eins og hetja, sagði við mig að læknirinn hefði gefið sér púst og svæft sig. Fannst það greinilega ekki mikið mál. Mömmuhjartað var frekar lítið í morgun vitandi af litla manninum sínum í svæfingu en í þetta skiptið fór pabbinn með hann því frúin var að vinna í dag. Held að okkur mæðrunum finnist alltaf að við þurfum að sjá um allt en svo geta auðvitað pabbar gert þetta allt saman líka. Þetta er annað skiptið sem hann fær rör í eyrun og vonandi þarf ekki að gera þetta aftur. Astrid hefur líka fengið rör tvisvar sinnum og Ísabella einu sinni. Systkinin eru semsagt öll með rör í eyrum og ættu því að heyra bara ansi vel þó að stundum virðast þau bara heyra það sem þau vilja heyra.....
Astrid er búin að innrétta í huganum herbergi í húsinu sem við flytjum í þegar við vinnum í lottóinu. Ég endurtek þegar en ekki ef,við vinnum FULLT af peningum og getum keypt RISASTÓRT hús með RISASTÓRU herbergi. Þetta verður án efa flottasta herbergið í bænum enda Astrid mín einstaklega smekkleg og frumleg. Held hún hafi það frá pabba sínum....
Ísabella er farin að standa upp. Er ekki alveg búin að ná tökum á því að setjast niður aftur og stendur því bara og dillar bossanum þangað til einhver kemur og bjargar henni. Annars kom ein frænka okkar með nýtt nafn á hana, Callas en stúlkan er með einstaklega háa og skræka rödd og er án efa efni í stórsöngkonu. Verður sennilega stórsönkona sem dansar ballet en hún vill helst bara standa á tánum. Sé hana alveg fyrir mér dansa Svanavatnið og syngja nokkrar aríur í leiðinni.....
Eybergsforeldrarnir ætla að skella sér til Kaupmannahafnar í næstu viku. Frúin elskar Kaupmannahöfn og allt sem danskt er. Er viss um að ég hafi verið dönsk í fyrra lífi. Stóru börnin verða í góðum höndum hjá nágrönnum okkar, Önnu og Hemma á meðan foreldrarnir spóka sig um á Strikinu og éta smörrebröd & pulsur á Ráðhústorginu með Ísabellu. Það má náttúrulega ekki brjóta hefðina með að fyrsta utanlandsferð Eybergsbarnanna er Kaupmannahöfn, Astrid var 6 mánaða þegar hún fór fyrst og Ernir var 10 mánaða. Ísabella verður semsagt 14 mánaða. Reyndar var hún í maganum á mér þegar ég fór síðast, sá til þess að mömmunni væri stöðugt flögurt en samt alltaf svöng og gat frúin varla labbað framhjá McDonalds án þess að fá einn lítinn borgara. Minnir mig nú á þegar við vorum þarna úti þegar Astrid var tveggja og hálfs árs. Alltaf þegar við löbbuðum fram hjá Burger King þurfti hún að pissa. Hún fattaði nefnilega að hún græddi súkkulaðishake í leiðinni. Klók stelpa......
Fylgdi kærri vinkonu til grafar í dag. Hildigunnur mín var búin að berjast við krabbamein í eitt og háft ár og nú er baráttunni lokið. Ég er svo fegin og glöð í hjarta mínu að hafa átt með henni kveðjustund á líknardeildinni í síðstu viku. Við unnum saman á leikskóla í nokkur ár og þrátt fyrir rúmlega 30 ára aldursmun náðum við svo dásamlega vel saman og þótti mér svo undurvænt um hana. Hún var frábær með börn, með breiðann og hlýjann faðm og hugsaði ég oft að ég hefði viljað vera barn á leikskóla hjá henni. Hún vann á leikskóla í yfir 40 ár og þar af á sama staðnum í yfir 30 ár. Það kalla ég ansi gott....
Svo er bara 17. júní á næsta leiti. Best að fara að grafa regnhlífina upp og íslenska fánann......
Athugasemdir
Loksins kom blogg hjá þér kona, það sem ég er búin að bíða.... Gott hjá ykkur að skella ykkur til Köben, um að gera halda í hefðina með fyrstu utanlansferð barnanna. Það er líka svo máturlegur hiti þarna í Danmörku, ekkert of heitt.
Hlakka til að sjá þig á brettinu þegar þú kemur til baka, kossar og knús.
P.s Góða ferð til Dk....
Silla Ísfeld, 16.6.2007 kl. 23:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.