Minningar um ömmu

Allar ömmur eru góðar, en mín var best.  Þegar ég var lítil stelpa hélt ég að amma mín myndi verða milljón ára og að við yrðum alltaf saman.  Ég man nú ekki hvað ég var gömul þegar ég áttaði mig á að svo yrði ekki og að það kæmi að þeim degi að hún myndi falla frá.  Það var mikið áfall fyrir barn sem var svo óskaplega hænd ömmu sinni og hugsaði ég oft um að ég gæti alls ekki án hennar verið.  Ég var heppin því amma lifði lengi, ég var orðin þrítug þegar hún dó en nú í maí eru 4 ár síðan hún fór..

Fyrstu minningar mínar um ömmu eru úr Hamrahlíð 5 en þar bjuggu amma og afi nánast öll sín búskaparár.  Á heimili ömmu og afa var svo óskaplega gott að vera, svo hlýtt og notalegt andrúmsloft.  Ég man eftir ömmu standandi í elhúsinu með svuntuna og stundum með skuplu á höfðinu, alltaf að passa að allir fengju nóg að borða. Ég man eftir ilmandi lyktinni af nýbökuðu brauði og bollum eða marmaraköku eins og ég hefði verið í elhúsinu í Hamrahlíð í gær.  Kúmpulyktin á sunnudögum var ómótstæðileg og allt var svo gott á bragðið enda var amma  húsmóðir af guðs náð.  Ég gisti hjá ömmu og afa um hverja helgi og og á ég ótal minningar frá því, t.d. þegar við vorum að fara að sofa og kíktum alltaf á stjörnurnar fyrst eða þegar amma las sömu Kalla og Kötu bókina aftur og aftur fyrir mig og ég leiðrétti íslenskuna hennar.  Amma var svona ekta mjúk amma sem var svo gott að koma þreytt til eftir skóla.  Þá útbjó hún eitthvað gott að borða og sagði svo gjarnan “viltu ekki bara leggja þig”? Ég lagðist þá upp í sófa og tikkið í stofuklukkunni og hljóðið í prjónunum hennar var svo notalegt.  Amma var mjög listræn og málaði hún rósamálningu á marga fallega hluti og einnig verð ég að minnast á barnabókina sem kom út eftir hana,  Ævintýri bókstafanna en þar bæði samdi hún söguna og teiknaði allar myndirnar líka.

Ferðirnar okkar til Noregs eru ógleymanlegar.  Það var henni svo mikils virði að ég kynntist fjölskyldunni hennar og eru þessar ferðir mér dýrmæt minning.  Fólkið hennar var eins og amma, umhyggjusamt og hjartahlýtt.  Og heima í Noregi var hún í essinu sínu því hún var fyrst og fremst norðmaður í hjarta sínu og hafði svo sterkar taugar heim.  Þrátt fyrir að hafa búið hér á Íslandi í meira en 60 ár var Noregur heima í hennar augum.  Þau systkinin voru samrýmd og hún saknaði þeirra svo mikið en bréfaskriftir og ferðir til Noregs gerðu heimþrána auðveldari.  Alltaf þegar hún fékk bréf að heiman byrjaði hún á að renna hratt yfir það til að athuga hvort allir væru heilir heilsu og svo las hún bréfin aftur og aftur og sagði mér fréttir af fólkinu sínu. Í þá daga var ferð til Arendal í Noregi álíka mikið mál og ferð í dag til Kína.

Við amma vorum  mjög nánar og tengdumst  órjúfanlegum og sérstökum böndum allt fram á hennar síðasta dag.  Hún bar hag minn svo fyrir brjósti sér að orð voru ekki alltaf nauðsynleg.  Síðasta árið hennar ömmu var erfitt, heilsan var orðin slæm og taldi ég mig því vera tilbúna að hún yfirgæfi þennann heim.  Þegar stundin nálgaðist varð ég bara litla stelpan hennar ömmu sem fannst svo gott að kúra í fanginu hennar og vildi ég alls ekki sleppa henni og hætti amma ekki að draga andann fyrr en ég fullvissaði hana að ég væri tilbúin að sleppa henni. En mikið óskaplega var það sárt, ég hafði stundum velt því fyrir mér hvernig þessi stund yrði og tilfinningin var stingandi sársauki og söknuður.  Það skipti engu þó amma væri orðin 93 ára gömul, þetta var vont. Ég hugsa svo oft um hana nú 4 árum seinna, og finnst mér svo dásamlegt að eiga allar þessar minningar um hana og ég efast ekki um að hún fylgist með mér og hitti ég hana stundum í draumi.  Amma var svo lítillát og þakklát fyrir allt sem gert var fyrir hana.   Það var auðvelt að gera henni greiða því ég fékk það svo margfalt til baka í ást og umhyggju. Hún sagði svo oft að hún væri svo heppin að eiga mig að en ég svaraði alltaf að við værum heppnar að eiga hvor aðra.  Ég er svo þakklát að hafa átt hana ömmu mína og er hún fyrirmynd mín í hvernig manneskja ég vil vera…… 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Silla Ísfeld

Svona fallegar og góðar minningar eru ómetanlegar. Ég veit eftir að hafa talað við þig á brettinu um ömmur okkar, hvað amma þín var þér mikilvæg. Maður þarf ekki að tala við þig lengi til að skynja hvað þú ert óendanlega þakklát fyrir tímann sem þú áttir með henni. Það er synd að ömmur og afar hafi ekki svona mikinn og góðan tíma í dag, með barnabörnunum sínum, eins og ömmur okkar höfðu fyrir okkur.

Silla Ísfeld, 1.5.2007 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband