23.4.2007 | 07:42
Góð skipti....
Í gær var stór stund í lífi sonarins en við fórum í húsdýragarðinn og hengdi hann allar snuddurnar sínar á snuddutréð og gaf hann þar með dýrunum allt snuddusafnið sitt. Í staðinn fékk hann hjól en við gerðum það sama þegar eldri dóttirin hætti með sínar snuddur. Hann er alsæll með hjólið og er búinn að hjóla MJÖG mikið síðan í gær. Ég átti von á að hann myndi vilja fá snuddurnar aftur í gærkveldi en hann spurði bara um þær einu sinni og svo ekki söguna meir. Drengurinn hefur nefnilega ekki haft neinn áhuga hingað til að hætta með þær og skipti engu máli þó móðir hans reyndi að hræða hann á sögum um skakkar tennur og tannréttingar á unglingsárum. Honum fannst bara frekar flott að vera með skakkar tennur og sagði oft að hann ætlaði að fá jafn ljótar tennur og Mikki refur, ef ekki ljótari. Að lokum tókum við foreldrarnir af skarið og ákváðum að nú væri tími til kominn að gefa syni Guttorms allar snuddurnar. Við þurftum að leita fyrst um alla íbúð til að þær færu örugglega allar enda safnið orðið dágott eftir rúmlega 3 ára söfnun. Amman kom með nokkrar sem leyndust heima hjá henni og festum við þær svo saman á spotta og var athöfnin þegar Ernir hengdi þær á snuddutréð tekið upp á myndband. Ég bjóst við nokkrum tárum hjá drengnum við þessa kveðjustund en hann bar sig mannalega. Þegar við komum heim beið svo hjólið eftir honum og er hann alsæll með hjólið og finnst þetta greinilega góð skipti......
Nú er bara eitt snuddubarn eftir á heimilinu og er áætluð ferð í húsdýragarðinn með hana í kringum sumardaginn fyrsta 2009. Nú kunnum við þetta sko....
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.