Hætt að blogga....

Er hætt að blogga á þessari síðu.  Finnst nóg að blogga á heimasíðu barnanna minna. 

Takk fyrir mig...


Flugur sem bíta og....

Astrid, Ernir 003Mynd af litla "gamanleikaranum" sem er svakalega hræddur við pínulitlar húsflugur.  Þær nefnilega geta bæði bitið mann og síðast en ekki síst kúkað á mann og það er jú ógeðslegt...........

Rör, Burger King og ýmislegt fleira....

Sonur minn fékk rör í eyrun í morgun.  Stóð sig eins og hetja, sagði við mig að læknirinn hefði gefið sér púst og svæft sig.  Fannst það greinilega ekki mikið mál.  Mömmuhjartað var frekar lítið í morgun vitandi af litla manninum sínum í svæfingu en í þetta skiptið fór pabbinn með hann því frúin var að vinna í dag.  Held að okkur mæðrunum finnist alltaf að við þurfum að sjá um allt en svo geta auðvitað pabbar gert þetta allt saman líka.  Þetta er annað skiptið sem hann fær rör í eyrun og vonandi þarf ekki að gera þetta aftur.  Astrid hefur líka fengið rör tvisvar sinnum og Ísabella einu sinni.  Systkinin eru semsagt öll með rör í eyrum og ættu því að heyra bara ansi vel þó að stundum virðast þau bara heyra það sem þau vilja heyra.....

Astrid er búin að innrétta í huganum herbergi í húsinu sem við flytjum í þegar við vinnum í lottóinu.  Ég endurtek þegar en ekki ef,við vinnum FULLT af peningum og getum keypt RISASTÓRT hús með RISASTÓRU herbergi.  Þetta verður án efa flottasta herbergið í bænum enda Astrid mín einstaklega smekkleg og frumleg.  Held hún hafi það frá pabba sínum....

Ísabella er farin að standa upp.  Er ekki alveg búin að ná tökum á því að setjast niður aftur og stendur því bara og dillar bossanum þangað til einhver kemur og bjargar henni.  Annars kom ein frænka okkar með nýtt nafn á hana, Callas en stúlkan er með einstaklega háa og skræka rödd og er án efa efni í stórsöngkonu.  Verður sennilega stórsönkona sem dansar ballet en hún vill helst bara standa á tánum.  Sé hana alveg fyrir mér dansa Svanavatnið og syngja nokkrar aríur í leiðinni.....

Eybergsforeldrarnir ætla að skella sér til Kaupmannahafnar í næstu viku.  Frúin elskar Kaupmannahöfn og allt sem danskt er.  Er viss um að ég hafi verið dönsk í fyrra lífi.  Stóru börnin verða í góðum höndum hjá nágrönnum okkar, Önnu og Hemma á meðan foreldrarnir spóka sig um á Strikinu og éta smörrebröd & pulsur á Ráðhústorginu með Ísabellu.  Það má náttúrulega ekki brjóta hefðina með að fyrsta utanlandsferð Eybergsbarnanna er Kaupmannahöfn, Astrid var 6 mánaða þegar hún fór fyrst og Ernir var 10 mánaða.  Ísabella verður semsagt 14 mánaða.  Reyndar var hún í maganum á mér þegar ég fór síðast, sá til þess að mömmunni væri stöðugt flögurt en samt alltaf svöng og gat frúin varla labbað framhjá McDonalds án þess að fá einn lítinn borgara.   Minnir mig nú á þegar við vorum þarna úti þegar Astrid var tveggja og hálfs árs.  Alltaf þegar við löbbuðum fram hjá Burger King þurfti hún að pissa.  Hún fattaði nefnilega að hún græddi súkkulaðishake í leiðinni.  Klók stelpa...... 

Fylgdi kærri vinkonu til grafar í dag.  Hildigunnur mín var búin að berjast við krabbamein í eitt og háft ár og nú er baráttunni lokið.  Ég er svo fegin og glöð í hjarta mínu að hafa átt með henni kveðjustund á líknardeildinni í síðstu viku. Við unnum saman á leikskóla í nokkur ár og þrátt fyrir rúmlega 30 ára aldursmun náðum við svo dásamlega vel saman og þótti mér svo undurvænt um hana.  Hún var frábær með börn, með breiðann og hlýjann faðm og hugsaði ég oft að ég hefði viljað vera barn á leikskóla hjá henni.  Hún vann á leikskóla í yfir 40 ár og þar af á sama staðnum í yfir 30 ár.  Það kalla ég ansi gott....

Svo er bara 17. júní á næsta leiti.  Best að fara að grafa regnhlífina upp og íslenska fánann......


Stúlka er fædd

Lítil dásamleg frænka fæddist í morgun á sjúkrahúsinu í Hilleröd kl. 6:07.  Ekkert svo lítil reyndar, 4660 grömm (sem frænkunni reiknast heilar 18,5 merkur) og 56 cm og heilsast þeim mæðgum vel að sögn pabbansSmile   Nú getur tanta Ásta ekki beðið eftir að komast í heimsókn til DK í sumar og knúsa frænkurnar allar.  Get ekki beðið eftir að komast í búð og kaupa einhvern geggjaðan bleikan kjól.......

23. maí er góður dagur, en frúin á einmitt 15 ára stúdentsafmæli í dagSmile Svei mér ef ég kemst ekki bara ennþá í rándýru útskriftardragtina nú fimmtán árum síðar og kalla ég það bara nokkuð gott...... 

p.s. ég vann veðmálið


Prins póló

3 ára sonur minn var að borða brauð áðan og um leið og hann setti síðasta bitann upp í sig spurði hann:  "Hvernig segir maður brauð á pólsku????"  Veit einhver?  Ég hef allavega ekki hugmynd um það.  Veit ekki hvaðan þessi tungumálaáhugi kemur, en honum finnst allavega Prins póló svakalega gott.....

Kosningar

Börnin mín voru mjög spennt að fara með okkur að kjósa í dag.  Spurðu reglulega hvenær við færum eiginlega að kjósa???? Urðu svo fyrir smá vonbrigðum þegar þau sáu að það fólst bara í því að setja x á blað og troða bleika blaðinu í kassa og drífa sig svo út í bíl aftur.  Þau fengu reyndar að setja sitthvort blaðið í kassann.  Fórum svo á MacDonalds og fengum okkur hamborgara í sárabót.....

Við höfum aðeins fylgst með júróvision hérna á heimilinu.  Dóttirin segir að Eiríkur Hauksson sé alveg pottþétt Grímsson en ekki Hauksson og sonurinn er alveg sannfærður að hann heiti Jónsi.Wink Við erum ferlega spæld að lagið komst ekki áfram í keppninni og nennum ekki einu sinni að horfa í kvöld.....


Minningar um ömmu

Allar ömmur eru góðar, en mín var best.  Þegar ég var lítil stelpa hélt ég að amma mín myndi verða milljón ára og að við yrðum alltaf saman.  Ég man nú ekki hvað ég var gömul þegar ég áttaði mig á að svo yrði ekki og að það kæmi að þeim degi að hún myndi falla frá.  Það var mikið áfall fyrir barn sem var svo óskaplega hænd ömmu sinni og hugsaði ég oft um að ég gæti alls ekki án hennar verið.  Ég var heppin því amma lifði lengi, ég var orðin þrítug þegar hún dó en nú í maí eru 4 ár síðan hún fór..

Fyrstu minningar mínar um ömmu eru úr Hamrahlíð 5 en þar bjuggu amma og afi nánast öll sín búskaparár.  Á heimili ömmu og afa var svo óskaplega gott að vera, svo hlýtt og notalegt andrúmsloft.  Ég man eftir ömmu standandi í elhúsinu með svuntuna og stundum með skuplu á höfðinu, alltaf að passa að allir fengju nóg að borða. Ég man eftir ilmandi lyktinni af nýbökuðu brauði og bollum eða marmaraköku eins og ég hefði verið í elhúsinu í Hamrahlíð í gær.  Kúmpulyktin á sunnudögum var ómótstæðileg og allt var svo gott á bragðið enda var amma  húsmóðir af guðs náð.  Ég gisti hjá ömmu og afa um hverja helgi og og á ég ótal minningar frá því, t.d. þegar við vorum að fara að sofa og kíktum alltaf á stjörnurnar fyrst eða þegar amma las sömu Kalla og Kötu bókina aftur og aftur fyrir mig og ég leiðrétti íslenskuna hennar.  Amma var svona ekta mjúk amma sem var svo gott að koma þreytt til eftir skóla.  Þá útbjó hún eitthvað gott að borða og sagði svo gjarnan “viltu ekki bara leggja þig”? Ég lagðist þá upp í sófa og tikkið í stofuklukkunni og hljóðið í prjónunum hennar var svo notalegt.  Amma var mjög listræn og málaði hún rósamálningu á marga fallega hluti og einnig verð ég að minnast á barnabókina sem kom út eftir hana,  Ævintýri bókstafanna en þar bæði samdi hún söguna og teiknaði allar myndirnar líka.

Ferðirnar okkar til Noregs eru ógleymanlegar.  Það var henni svo mikils virði að ég kynntist fjölskyldunni hennar og eru þessar ferðir mér dýrmæt minning.  Fólkið hennar var eins og amma, umhyggjusamt og hjartahlýtt.  Og heima í Noregi var hún í essinu sínu því hún var fyrst og fremst norðmaður í hjarta sínu og hafði svo sterkar taugar heim.  Þrátt fyrir að hafa búið hér á Íslandi í meira en 60 ár var Noregur heima í hennar augum.  Þau systkinin voru samrýmd og hún saknaði þeirra svo mikið en bréfaskriftir og ferðir til Noregs gerðu heimþrána auðveldari.  Alltaf þegar hún fékk bréf að heiman byrjaði hún á að renna hratt yfir það til að athuga hvort allir væru heilir heilsu og svo las hún bréfin aftur og aftur og sagði mér fréttir af fólkinu sínu. Í þá daga var ferð til Arendal í Noregi álíka mikið mál og ferð í dag til Kína.

Við amma vorum  mjög nánar og tengdumst  órjúfanlegum og sérstökum böndum allt fram á hennar síðasta dag.  Hún bar hag minn svo fyrir brjósti sér að orð voru ekki alltaf nauðsynleg.  Síðasta árið hennar ömmu var erfitt, heilsan var orðin slæm og taldi ég mig því vera tilbúna að hún yfirgæfi þennann heim.  Þegar stundin nálgaðist varð ég bara litla stelpan hennar ömmu sem fannst svo gott að kúra í fanginu hennar og vildi ég alls ekki sleppa henni og hætti amma ekki að draga andann fyrr en ég fullvissaði hana að ég væri tilbúin að sleppa henni. En mikið óskaplega var það sárt, ég hafði stundum velt því fyrir mér hvernig þessi stund yrði og tilfinningin var stingandi sársauki og söknuður.  Það skipti engu þó amma væri orðin 93 ára gömul, þetta var vont. Ég hugsa svo oft um hana nú 4 árum seinna, og finnst mér svo dásamlegt að eiga allar þessar minningar um hana og ég efast ekki um að hún fylgist með mér og hitti ég hana stundum í draumi.  Amma var svo lítillát og þakklát fyrir allt sem gert var fyrir hana.   Það var auðvelt að gera henni greiða því ég fékk það svo margfalt til baka í ást og umhyggju. Hún sagði svo oft að hún væri svo heppin að eiga mig að en ég svaraði alltaf að við værum heppnar að eiga hvor aðra.  Ég er svo þakklát að hafa átt hana ömmu mína og er hún fyrirmynd mín í hvernig manneskja ég vil vera…… 


Á fertugsaldri

Ég hitti í dag mann sem ég passaði þegar hann var lítill.  Ég þekkti hann aftur af því að hann lítur út nákvæmlega eins og pabbi hans gerði þegar ég var barnapían hans.  Ég verð að viðurkenna að mér fannst ég orðin ansi gömul að hitta fullorðinn mann sem ég passaði sem barn.  Ég er nú ekki einu sinni orðinn 35 áraWink Hann er í dag sjálfur orðinn faðir og starfar sem kennari.  Gott að vita að vel rættist úr drengnum.....

 


Leitin mikla....

Frúin gerði í dag mikla leit af tankiní fyrir fyrirhugaða Spánarferð í sumar.  Kann asskoti vel við svona "stóra" útgáfu af bikiníi sem hylur vel krumpaðann magann eftir þrjár meðgöngur á rúmum 4 árum.  Verst að appelsínuhúðin á lærunum nýtur sín allt of vel þrátt fyrir að buxurnar séu talsvert efnismeiri en G-strengur.   Nú verð ég bara að taka hana Sillu vinkonu mína til fyrirmyndar og taka mataræðið föstum tökum og minnka rassinn.....

Góð skipti....

Í gær var stór stund í lífi sonarins en við fórum í húsdýragarðinn og hengdi hann allar snuddurnar sínar á snuddutréð og gaf hann þar með dýrunum allt snuddusafnið sitt.  Í staðinn fékk hann hjól en við gerðum það sama  þegar eldri dóttirin hætti með sínar snuddur.  Hann er alsæll með hjólið og er búinn að hjóla MJÖG mikið síðan í gær.  Ég átti von á að hann myndi vilja fá snuddurnar aftur í gærkveldi en hann spurði bara um þær einu sinni og svo ekki söguna meir. Drengurinn hefur nefnilega ekki haft neinn áhuga hingað til að hætta með þær og skipti engu máli þó móðir hans reyndi að hræða hann á sögum um skakkar tennur og tannréttingar á unglingsárum.  Honum fannst bara frekar flott að vera með skakkar tennur og sagði oft að hann ætlaði að fá jafn ljótar tennur og Mikki refur, ef ekki ljótari.  Að lokum  tókum við foreldrarnir af skarið og ákváðum að nú væri tími til kominn að gefa syni Guttorms allar snuddurnar.  Við þurftum að leita fyrst um alla íbúð til að þær færu örugglega allar enda safnið orðið dágott eftir rúmlega 3 ára söfnun.  Amman kom með nokkrar sem leyndust heima hjá henni og festum við þær svo saman á spotta og var athöfnin þegar Ernir hengdi þær á snuddutréð tekið upp á myndband.  Ég bjóst við nokkrum tárum hjá drengnum við þessa kveðjustund en hann bar sig mannalega.  Þegar við komum heim beið svo hjólið eftir honum og er hann alsæll með hjólið og finnst þetta greinilega góð skipti......

Nú er bara eitt snuddubarn eftir á heimilinu og er áætluð ferð í húsdýragarðinn með hana í kringum sumardaginn fyrsta 2009. Nú kunnum við þetta sko....  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband